Formaður fór á fund formanna, sk. „president’s meeting“ í Malmö nú um helgina. Fundurinn hófst á föstudag með því að flugsstjórnarmiðstöðin í Malmö var skoðuð eða flugstjórnarmiðstöðvarnar væri réttara að segja því auk flugstjórnarmiðstöðvarinnar sem flugumferðarstjórnin fer nú fram í þá var „nýja flugstjórnarmiðstöðin“ einnig skoðuð, hún stendur tilbúin, aðeins er beðið eftir því að fluggagna- og ratsjárkerfið, Eurocat 2000, verði líka tilbúið. Ég segi „nýja“ því eftir því sem mér er sagt þá eru nokkur ár síðan til stóð að flutt yrði „á næstu mánuðum“. Hvað um það, mætt voru á fundinn allir formenn, það er ánægjulegt að segja frá því að kvenmenn voru í meirihluta en formenn Svía og Dana eru þær Camilla og Pernille, Sami er formaður Finna og Rolf er formaður Norðmanna. Laugardagurinn fór í fundarsetu þar sem rædd voru ýmis mál, ljóst er að öll erum við að stóru leyti að glíma við samskonar málefni. Fyrirhugað NUAC (Nordic upper area control) center í Malmö er Dönum og Svíum talsvert áhyggjuefni og nokkuð var rætt um þá miklu óvissu sem enn ríkir um þá fyrirætlan. Finnar, Norðmenn og Svíar standa allir frammi fyrir fyrirætlunum um fækkun flugstjórnarmiðstöðva og er því nokkurt áhyggjuefni hvernig staðið verður að málum á hverjum stað. Norðmenn telja að illa hafi verið staðið að því þegar flugstjórnarmiðstöðin í Trondheim hafi verið lögð niður og starfssemin flutt til Bodö. Fyrirhugað er að taka ákvörðun nú í haust um frekari sameiningu en hugmyndin er sú að sameina starfssemina í Stavanger og Royken á öðrum hvorum staðnum. Ljóst er að breyting verður hjá Finnum og Svíum á næstu árum vegna fyrirhugaðs aðskilnaðar þjónustu, stjórnsýslu og eftirlits en enn eru þeir undir hatti flugmálastjórna landa sinna. Af öðrum málum er það að frétta að sumarið er að bresta á í Svíþjóð og fyrir þá sem ekki vissu betur þá get ég frætt ykkur á að fjallahjólabyltingin hefur ekki náð til Malmö, þar eru gömlu DBS hjólin enn í fullri notkun og ekkert útlit fyrir að það breytist á næstunni!
HM