Kveðjur frá Kabul, enn einni paradís á þessari jörð.
Þá er maður kominn aftur í stríðið, nú í Afghanistan. Þetta er nú kannski ekki besti staðurinn á jarðríki en öllum líður þó vel. Kabul er borg sem var að mestu lögð í rúst á árunum 1989 til 1996 en nú er verið að hreinsa svolítið til og byggja upp. Hér búa líklega um 3 milljónir manna, gífurlegur húsnæðisskortur og atvinnuleysi, opin skólpræsi allsstaðar og húsin gerð úr múrsteinum gerðum úr mold og leir. Hreinsun skólpræsa felst í því að moka skítnum upp á barminn þar sem hann þornar, verður að ryki og fýkur yfir borgina og blandast það öllu rykinu úr eyðimörkunum hér allt í kring. Sem betur fer er stöðug norðanátt og flugvöllurinn norðan við borgina svo eina rykið hér er úr eyðimörkinni, nægt er það nú samt. Annars er ágætt að vera hérna. Góður aðbúnaður miðað við það sem gengur og gerist á herstöðvum. 35 stig á daginn og um 16 á kvöldin og nánast alltaf sól. Þó koma rykstormar niður úr eyðimörkinni þegar vindurinn nær sér á strik síðdegis. Ofurstinn (Halli Sig) tók við sem kommander á flugvellinum þann 1. júní og er að setja sig inn í hlutina. Starfsemin hefur gengið ágætlega þótt í býsna mörg horn sé að líta. Þessi flugvöllur er skelfilega langt á eftir í öllum hlutum, langt á eftir Pristina eins og hann var þegar við tókum við. Hér eru t.d. engar aðflugsgræjur sem nothæfar eru. Búið að setja upp ILS og VOR en engin kort komin. Engin PAPI, ljósin léleg, ekkert ATIS, flugbrautin sprungin og yfirborðið dapurt, engar merkingar á töxum eða neinu o.s.frv. Þannig að margt þarf að gera. Umferðin um taxana er skondin. Hér virðast allir aka eins og þeim hentar og vart helmingur umferðarinnar í sambandi við flugturninn. Flugvél að aka niður aðaltaxann getur vænst þess að mæta Frönskum bílalestum, lyfturum, skriðdrekum, gangandi fólki, sprengjuleitarfólki, fólki á reiðhjólum og mótorhjólum, farangursvögnum, strætisvögnum o.s.frv. Þvílíkt kaos. Við erum að átta okkur á þessu öllu og byrja að gera lagfæringar. Við Lúlli erum í turninum og þessa dagana er ég að setja upp plön fyrir Halla um það sem við viljum breyta. Þar gætir missa grasa, í raun allt sem þarf til að reka flugvöll, reglur um flug og umferð á jörðinni, AIP og MANOPS, teikna flugvöllinn upp, aðflugstæki og flestar græjur og fl. og fl. Þetta er býsna áhugavert og margt sem þarf að pæla í. Við þurfum að hafa mikið samband við heimamenn því þeir ráða hluta vallarins og Norðurbandalagið ræður hluta hans. Flugvallarstjóri heimamanna, “President of Kabul Airport”, er gamall höfðingi, gráskeggjaður og virðulegur en algjör refur. Það kemst enginn í þess háttar stöðu fyrir tilviljun.
Semsagt, allir eru kátir og þetta fer vel af stað.
Bestu kveðjur
Friðrik Már Jónsson
Kabul