Í dag er alþjóðlegur dagur flugumferðarstjóra, 20. október 1961 voru Alþjóðasamtök félaga flugumferðarstjóra, IFATCA, stofnuð. Að stofnuninni stóðu 12 félög flugumferðarstjóra, Félag íslenskra flugumferðarstjóra, þar á meðal. Nú eru 128 félög flugumferðarstjóra aðilar að alþjóðasamtökunum.
Flugumferðarstjórn á Íslandi
Sögu flugumferðarstjórnar á Íslandi má rekja til hernáms Breta, breskir hermenn voru þeir fyrstu sem störfðu við flugumferðarstjórn hér á landi. Í maí árið 1946 tóku Íslendingar við flugumferðarstjórn í flugturninum á Reykjavíkurflugvelli. Í dag telur FÍF rúmlega 120 félagsmenn og starfar stærstur hluti þeirra í flugstjórnarmiðstöðinni á Reykjavíkurflugvelli. Íslenska flugstjórnarsvæðið nær í grófum dráttum frá norðurströnd Skotlands til Norðurpóls og frá vesturströnd Noregs til austurstrandar Kanada; svæðið er alls um fimm milljón ferkílómetrar að stærð. Flugumferðarstjórn fer einnig fram á flugvöllunum í Keflavík, Reykjavík, Akureyri og Vestmannaeyjum. Þá starfa íslenskir flugumferðarstjórar á flugvöllunum í Pristina og Kabúl.
Menntun og starf flugumferðarstjórans
Menntun flugumferðarstjóra er afar sérhæfð og gerð er krafa um reglulega endurþjálfun. Miklar kröfur eru einnig gerðar um heilsufar flugumferðarstjóra og þeim er gert að hætta störfum við 60 ára aldur. Starf flugumferðarstjórans felst í stuttu máli í því að viðhalda öruggu, skipulögðu og skilvirku flæði flugvéla. Auk þess að starfa í framlínu við flugumferðarstjórn þá sinna flugumferðarstjórar fleiri verkefnum, s.s. kennslu, þróun fluggagnavinnslukerfis og gerð verklagsreglna. Hvert sem verkefnið er, er flugöryggi ætíð efst í huga flugumferðarstjórans.
Ábyrgð starfsins
Á „góðum degi” eins og við flugumferðarstjórar köllum þá daga þegar flugumferð er mikil, fljúga allt að 140 þúsund farþegar í íslenska flugstjórnarsvæðinu. Á sl. sex mánuðum má áætla að um 13 milljónir flugfarþega hafi notið góðs af þjónustu íslenskra flugumferðarstjóra. Flugumferðarstjórar eru mikilvægur hlekkur í því heildarkerfi sem hefur að markmiði að koma hverri flugvél örugglega frá brottfararstað til lendingarstaðar. Flugumferðarstjórastarfinu fylgir mikil ábyrð og hana tökum við alvarlega. Skemmst er þess að minnast að flugumferðarstjóri var myrtur fyrr á þessu ári. Hann var við störf þegar tvær flugvélar rákust saman yfir Uberlingen, Þýskalandi, í júlí 2002 með hörmulegum afleiðingum. Morðingi flugumferðarstjórans missti ættingja í slysinu. Morðið vakti flugumferðarstjóra svo um munar til vitundar um hugsanlegar afleiðingar starfsins. Rannsókn flugslyssins leiddi í ljós röð atburða (mistaka) þar sem þáttur flugumferðarstjórans var síst stærri en annarra orsakaþátta slyssins. Að gera flugumferðarstjórann einan ábyrgan líkt og hér var gert er óásættanlegt, hvort sem er af almenningi, fjölmiðlum eða yfirvöldum. Þrátt fyrir tilvik sem þetta þá er margt sem gerir starf flugumferðarstjóra eftirsóknarvert enda er það krefjandi, lifandi og spennandi starf. Ég óska flugumferðarstjórum til hamingju með daginn.
Hlín Hólm,
Formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra