Sumarið er nú að baki og kaldir vindar farnir að blása aftur um sólbrún andlit flugumferðarstjóra. Að venju snerust störf orlofshúsanefndar mest megnis um rekstur orlofshúsanna. Nýting á þeim var góð í sumar. Eins og flestum er kunnugt þá var sumarbústaður í Borgarfirði (Svarfhóll) tekinn á leigu til viðbótar við Gullhvamm og Aðalból. Það hefur mælst vel fyrir og þeir sem hafa dvalið þar hafa verið ánægðir með staðinn. Að vísu voru vandamál með vatnið í byrjun (hljómar kunnuglega) en því var kippt í lag. Á þessari stundu er óljóst hvort við munum hafa afnot af Svarfhóli nema fram til áramóta. Það kemur til af því að eigandinn er að reyna að selja bústaðinn. Orlofsnefndin hefur lýst því yfir við eiganda hússins að við viljum ekki kaupa. Við teljum það vera félaginu ofaukið að bæta við sig öðru húsi; ekki síst í ljósi þess að mikil vinna felst í því að sjá um reglulegt viðhald á svona húsum og félagsmenn hafa verið frekar slappir að gefa kost á sér í nauðsynlegar vinnuferðir í bústaðina okkar þegar orlofsnefnd hefur óskað eftir aðstoð. Ekki teljum við að það breytist við að fjölga húsum.
Hvað er framundan?
Töluverðir fjármunir hafa safnast inn á sjóði orlofsnefndar að undaförnu. Það skýrist af því að á síðasta ári fékk orlofsnefnd vangreiddar fjárhæðir frá ríkinu til nokkurra ára. Ríkið hafði greitt of lága prósentu inn í orlofs- og sjúkrasjóð og þegar það uppgötvaðist var óskað eftir leiðréttingu. Niðurstaðan var að FÍF fékk endurgreitt nálægt kr.3.000.000 og var ákveðið á félagsfundi að þeir peningar rynnu beint í orlofssjóð. (Sjúkrasjóði hafði áður verið tryggður fastur tekjustofn.) Jafnframt hefur framlag ríkisins til orlofssjóðs hækkað í 0,3% af launum félagsmanna. Innstreymi í orlofssjóð frá ríkinu hefur því hækkað og er nú nálægt kr. 2.000.000 á ári. Af þeirri upphæð fer stór hluti til rekstrar og viðhalds orlofshúsa okkar ásamt niðurgreiðslu á útleigu til félagsmanna. Í dag á orlofsnefnd handbært fé nálægt kr. 5.000.000.
Orlofsnefnd leggur til að við höldum áfram að reka þau orlofshús sem við eigum en jafnframt því þarf að skoða aðra möguleika.
Þar er nú efst á teikniborðinu að skoða orlofsávísanakerfi líkt og VR hefur haft fyrir sína félagsmenn um nokkurn tíma og geta félagsmenn þá notað sínar árlegu ávísanir til að greiða fyrir margs konar orlofstengda iðju og þá einnig fyrir leigu á orlofshúsum FÍF.
Kosturinn við þetta er að fjármunir dreifast jafnt til félagsmanna FÍF, ólíkt því sem er í dag, þar sem sumir nýta sér aldrei orlofshús félagsins. Ekki er þó enn búið að koma þessu á og talsverð undirbúningsvinna eftir.
Gagnlegt væri að félagsmenn mynduðu sér skoðun á þessu máli sem hægt væri að ræða nánar á næsta aðalfundi. Þar gæfust líka möguleikar á að koma fram með aðrar hugmyndir en hér hafa verið nefndar.
Húsin okkar
Gullhvammur:
Vatnsveitumálin í Úthlíð hafa verið að breytast mikið og nú er Orkuveita Reykjavíkur búin að taka yfir veitu bæði á heitu og köldu vatni á svæðinu. Ljóst var frá byrjun að mikla vinnu þyrfti að leggja í endurbætur á vatnsveitunum báðum og hefur OR verið að vinna að því í allt sumar. Gert er ráð fyrir að það geti tekið allt að 2 árum að fullklára það verk og mun því geta haft áhrif fyrir íbúa sumarhúsanna. Reynt verður þó að haga þeirri vinnu þannig að sem minnst óþægindi verði.
Eins og flestir innan FÍF þekkja hafa vatnsmálin í Úthlíð verið sorgarsaga lengst af, því tók orlofsnefnd þá ákvörðun að ganga til samstarfs við OR. Það gengur út á það að OR eignast heimæðina að húsinu okkar en mun um leið ábyrgjast að halda henni í lagi.
Settur verður upp “Hemill” sem skammtar notkun á heitu vatni samkvæmt samningi og greiðum við fyrir samkvæmt því. Von okkar er að þegar þetta verður frágengið þá séu vatnsmálin í Gullhvammi loksins komin í gott horf.
Aðalból:
Var í notkun samkvæmt venju í allt sumar og var góð nýting út allan ágústmánuð. Orlofsnefndin fór þangað í vinnuferð snemma sumars og gerði allt klárt. Bústaðurinn var að mestu í góðu ástandi en þó þarf að fara að huga að endurbótum á þaki. Hitaveita hefur verið lögð inn á svæðið sem bústaðurinn okkar er á og var okkur boðið að taka heita vatnið inn til okkar. Við höfnuðum því. Ástæðan er sú að við teljum kostnaðinn of mikinn miðað við þá notkun sem við sjáum fyrir okkur á bústaðnum í framtíðinni. Þetta er og verður Sumarbústaður, með sinn sjarma sem slíkur. Ef við færum út í það að taka inn hitaveitu með heitum potti yrði kostnaðurinn sem því fylgdi meiri en við teljum ásættanlegt miðað við þá notkun sem er á húsinu. Sem heilsárshús myndi Aðalból aldrei ná ásættanlegri nýtingu yfir vetrarmánuðina vegna fjarlægðar frá höfuðborgarsvæðinu
Svarfhóll:
Leigubústaður í Borgarfirði.
Höfum afnot a.m.k til áramóta. Óljóst með framhaldið þar sem eigandinn er að reyna að selja húsið.
Kveðja,
Orlofshúsanefnd