19. des. sl. var haldinn félagsfundur FÍF þar sem umræðuefnið var fyrirhugaðar vaktkerfabreytingar hjá FMS. Félagsfundurinn sendi í kjölfarið frá sér harðorða félagsfundarályktun þar sem fyrirhuguðum einhliða breytingum á vinnufyrirkomulagi félagsmanna var mótmælt. Stjórn FÍF sendi enn fremur flugmálastjóra bréf þar sem skorað var á hann að hætta við fyrirhugaðar breytingar og jafnframt bent á að FÍF væri reiðubúið að láta á það reyna fyrir dómstólum hvort FMS hafi rétt á að breyta vinnufyrirkomulagi starfsmanna einhliða á þennan máta.
Stjórn FÍF var í kjölfarið boðuð á fund flugmálastjóra til að ræða stöðu mála, þann 29. des. sl.. FÍF gerði grein fyrir þeirri fyrirætlan að fara með fyrir félagsdóm þann ágreining hvort vaktafyrirkomulag skuli vera samkomulag aðila ellegar hvort, eins og FMS lítur á málið, það sé óskiptur réttur FMS að ákveða vinnufyrirkomulag starfsmanna. Það væri ekki kostur að okkar mati að fara með öll ágreiningsefni FÍF og FMS fyrir dómstóla “í einum pakka” heldur yrði að taka hvert ágreiningsefni fyrir sig. Fulltrúar FMS sögðu vilja stofnunar vera þann að framkvæma breytingar í sátt við starfsmenn, FÍF ítrekaði að frá okkar hendi væri fullur vilji til að semja eða gera samkomulag um vaktafyrirkomulag. Sagan sýnir að samningar/samkomulög um vaktafyrirkomulag hafa ekki alltaf verið mjög formlegir og telur FÍF að ekki þurfi að verða breyting þar á, svo fremi að um tvíhliða samning/samkomulag sé að ræða. Fundinum lauk með þeirri tillögu flugmálastjóra að FÍF og FMS myndu í sameiningu leggja ágreining sinn í hendur félagsdóms. Stjórn FÍF kvaðst mundu íhuga þá leið í samráði við lögfræðing félagsins.
FMS og FÍF munu funda á næstu dögum, stjórn FÍF mun þá taka ákvörðun um framhaldið og munu fréttir um það birtast hér á heimasíðunni.
Stjórnin.