Flugumferðarstjórar ítreka mótmæli sín við einhliða ákvörðun Flugmálastjórnar Íslands um nýtt vaktafyrirkomulag í flugstjórnarmiðstöðinni sem tók gildi 16. mars 2006. Félag íslenskra flugumferðarstjóra varaði á sínum tíma við þessum breytingum sem m.a. fólu í sér að flugumferðarstjórar fá fjögur helgarfrí á ári. Reynslan staðfestir því miður að þessi varnaðarorð voru í hæsta máta þörf og tímabær sbr. nýlegt bréf öryggisnefndar FÍF til yfirflugumferðarstjóra þar sem fram kemur það mat að ástandið í flugstjórn sé óviðunandi og geti ógnað flugöryggi.

 

Það er svo kapítuli út af fyrir sig að bera saman stjórnsýslu yfirmanna Flugmálastjórnar annars vegar og yfirlýsta starfsmanna- og fjölskyldustefnu Flugmálastjórnar hins vegar. Þar er himinn og haf á milli orða og gjörða. Í orði kveðnu leggur Flugmálastjórn áherslu á góðan starfsanda, tillitssemi í öllum samskiptum manna og viðleitni til að koma eftir föngum til móts við þarfir fjölskyldna starfsmanna sinna. Í verki ganga yfirmenn Flugmálastjórnar hins vegar hart fram í að rjúfa friðinn, stjórna með valdboði og eitra þannig andrúmsloft á vinnustaðnum.

 

Ástandið er óviðunandi og engin teikn um að yfirmenn Flugmálastjórnar muni beita sér fyrir breytingum til hins betra. Þar við bætist að Alþingi samþykkti á síðustu  dögum þingsins lög um að nýtt hlutafélag skuli taka við starfsemi í flugstjórnarmiðstöðinni í byrjun árs 2007. Flugumferðarstjórar mótmæltu lagafrumvarpinu og færðu margvísleg rök gegn því. Alþingi virti þau sjónarmið hins vegar að vettugi og samþykkti lögin án umræðu. Í ljósi þessarar lagasetningar, svo og nýgengins dóms Félagsdóms vegna vaktamála, hrýs flugumferðarstjórum hugur við þeirri tilhugsun að vont muni enn versna, enda hafi yfirmönnum Flugmálastjórnar í raun verið selt sjálfdæmi til valdstjórnar með dómnum og lagasetningunni.

 

 

Fundurinn skorar á samgönguráðherra að beita sér fyrir því nú þegar að vaktakerfið verði fellt úr gildi og upp verði tekið það vaktkerfi sem var við lýði fyrir 16. mars 2006. Jafnframt verði yfirmönnum Flugmálastjórnar gefin fyrirmæli um skilyrðislaust samráð við starfsfólk varðandi fyrirkomulag vakta.

 

 

 

Nánari upplýsingar:

Loftur Jóhannsson,

formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra,

sími 861 0050