Siðareglur Læknafélags Íslands fyrir trúnaðarlækna

Af heimasíðu Læknafélags Íslands http://www.lis.is/Items/Default.aspx?b=19

1.01 Trúnaðarlæknir veitir forráðamönnum fyrirtækja og stofnana ráðgjöf varðandi læknisfræðileg málefni viðkomandi rekstri.

1.02 Trúnaðarlæknir veitir ráðgjöf vegna fjarvista starfsmanna í veikinda- og slysatilfellum, meðal annars varðandi læknisvottorð.

1.03 Trúnaðarlæknir fyrirtækis gefur ekki út læknisvottorð starfsmanna til fyrirtækisins. Vottorð til vinnuveitenda skulu þannig gerð, að heimilislæknir haldi ætíð afriti af því. Ef útgefandi er annar en heimilislæknir, ber honum að senda heimilislækni afrit.

1.04 Sé þess óskað, ber trúnaðarlækni að útvega staðgengil í orlofi, lengri námsfríum og veikindaforföllum.

1.05 Ef aðilar eru sammála um slíkt, getur trúnaðarlæknir annast reglubundið heilsufarseftirlit meðal starfsfólks, enda verði um það samið sérstaklega.

1.06 Í samráði við vinnuveitanda ákveður trúnaðarlæknir nánar um alla framkvæmd á heilsufarseftirliti (sbr. 1.05).

1.07 Trúnaðarlæknir býður upp á fastan viðverutíma í húsnæði fyrirtækis eða stofnunar með 100 starfsmenn eða fleiri.

1.08 Trúnaðarlækni er skylt að gæta hagsmuna starfsmanna varðandi allt, sem gæti spillt heilsu þeirra í starfi. Samráð skal haft við Vinnueftirlit ríkisins, þegar ástæða þykir til.

1.09 Trúnaðarlæknir gegnir ekki hlutverki heimilislæknis fyrir starfsfólk. Honum ber ekki skylda til að sinna veikindum eða slysatilfellum, sem upp koma, nema í neyðartilvikum, enda hafi viðkomandi aðgang að heimilislækni eða slysadeild. Æskilegt er, að trúnaðarlæknir sé ekki jafnframt heimilislæknir starfsmanna fyrirtækisins.

1.10 Í starfi sínu fer trúnaðarlæknir ávallt eftir ákvæðum siðareglna lækna og læknalaga.