Hr. Sturla Böðvarsson
Ég heiti Grétar Reynisson, er flugumferðarstjóri, ráðinn til þeirra starfa fyrir um þrjátíu árum og nú síðustu árin í flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík.
Kveikja þessara skrifa eru orð þín í fréttum RUV kl.07:00 1. ágúst á þá leið að vilji sé hjá forsvarsmönnum flugumferðarstjóra að hnekkja niðurstöðu Félagsdóms. Þarna er sá sem bera ætti klæði á vopnin full hlutdrægur. Mér og auðvitað þér líka er fullkunnugt um að dómnum verður ekki hnekkt og engir tilburðir í þá átt hjá einstaka starfsmönnum eða forsvarsmönnum þeirra þó svo starfsfólk afþakki aukavinnu.
Ég er ekki einn af “forsvarsmönnum flugumferðarstjóra” og hef aldrei verið, þetta kemur þá bara frá grasrótinni.
Ástandið sem nú ríkir í flugstjórnarmiðstöðinni á sumarleyfistíma og þegar umferð er mest virðist eingöngu til komið vegna þess að starfsmenn þiggja ekki yfirvinnu, og er ég einn af þeim en hef þó síðastliðna þrjá áratugi ávallt verið í hópi þeirra sem viljugastir hafa verið til að sinna aukavinnu, allt til síðustu áramóta. Hvað breyttist ? Jú , ástæðan er vaktakerfi sem fækkaði frídögum mínum um 30 á ári án þess að greiðsla kæmi fyrir. Og ekki bætti úr skák framsetning þess af millistjórnendum flugmálastjórnar (bæði fyrir og eftir niðurstöðu félagsdóms). Það var greinilegt að ekki átti að semja, og fólki jafnvel bent á að minnka bara vinnuprósentu sína ef það vildi jafn marga frídaga og áður, með tilheyrandi launaskerðingu auðvitað!
Hugsanlega má sýna á súluritum sparnað með nýja vaktkerfinu og væntanlega hafa þeir sem stokkuðu það upp haft hagræðingu í huga við samningu þess, alla vega virðist öryggið ekki ofarlega á blaði og ennþá síður starfsmenn og fjölskyldur þeirra. Það er kannski ljótt að segja það, en fjandsamleg framsetning sem og harkaleg framkvæmd þessara breytinga minna mig stundum á frásagnir af leysingjum sem komist hafa í álnir og hatast við uppruna sinn og gera allt til þess að breiða yfir hann, en “primus motorar” og höfundar þessara breytinga eru jú fyrrverandi flugumferðarstjórar sem eflaust ætla sér stóra hluti hjá hinu nýstofnaða fyrirtæki Flugstoðir ohf, þrátt fyrir að hugsanlegir leiðtogahæfileikar þeirra hafi ekki notið sín upp á síðkastið.
Ég minnist þess frá árum áður að þegar hringt var í mig á frídögum og ég beðinn að mæta aukalega vegna vaxandi umferðar, “allt að verða vitlaust” hét það stundum, þá var ég oftar en ekki mættur á staðinn reykspólandi rétt kominn í aðra peysuermina, til að hjálpa til við að bjarga málunum. Bara fyrir réttu ári síðan var það sjálfsagt mál að mæta aukalega,jafnvel breyta dagvakt í næturvakt eða að koma til vinnu einhverjum klukkustundum fyrr en vaktskrá sagði til um, sem sagt liðka til, hjálpast að. Og að minnsta kosti var ég stoltur af því þegar vel hafði gengið eftir annasaman dag. Enda gekk þetta vel, millistjórnendur og aðrir starfsmenn unnu saman að því að þjónustan væri sem best.
Núna hinsvegar, á örfáum mánuðum er ástandið breytt til hins verra, þarna vinna
„þeir og við“ , enginn gerir meira en það sem skyldan segir, allur sveigjanleiki og „goodwill“ á brott. Svona myndi ég ekki vilja reka það fyrirtæki sem á að taka við starfseminni næstu áramót.
Ég vinn vaktavinnu, veit allt um það og ekki síður konan mín og börnin. Mig langar samt að setja upp smá dæmi fyrir þá sem vinna hefðbundinn vinnutíma: Þú mátt mæta hálfri klukkustund seinna á hverjum degi en mætir svo einn dag aðra hvora helgi!!!!!!!!! (óbreytt laun) en eins og mínir yfirmenn sögðu á starfsmannafundum þegar maldað var í móinn: „Jú þetta er betra fyrir þig“.
Í mínum huga er þó enginn vafi hver á að stjórna fyrirtækinu, til þess valdir yfirmenn og ekki ætlun mín að véfengja það en…………það er hægt að stjórna og það er hægt að „stjórna“ en þeir sem núna skipa fyrir í flugstjórnarmiðstöðinni virðast komnir í blindgötu án þess að finna bakkgírinn.
Mín bón til þín hr. samgönguráðherra er því einföld: að þú vinsamlegast horfir á málið ekki bara ofan frá úr valdastiganum, heldur líka af hliðarlínunni þaðan sem ég og aðrir óbreyttir starfsmenn og fjölskyldur þeirra fylgjast með 30 frídögum á ári fjúka burtu, bótalaust.
Með samstarfskveðjum
GRÉTAR REYNISSON
flugumferðarstjóri #1877