Reykjavík 8. ágúst 2006

 

Hr. flugmálastjóri

Þorgeir Pálsson

Flugmálastjórn

 

Tvær lykilspurningar um flugöryggi

 

Félag íslenskra flugumferðarstjóra vísar til þess fáheyrða atburðar sem átti sér stað mánudaginn 31. júlí, þegar veikur flugumferðarstjóri var neyddur til að vinna við flugumferðarstjórn:


Í 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 441/1997, um starfsemi Flugmálastjórnar Íslands, segir m.a. um hlutverk hennar: Flugmálastjórn Íslands hefur eftirlit með því, að lögum, reglugerðum og fyrirmælum um flugstarfsemi sé framfylgt, með sérstakri áherslu á flugöryggi.

Þá segir í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 60/1998, um loftferðir, sbr. einnig 74. gr. laganna: Enginn flugverji eða annar starfsmaður má hafa með hendi starfa í loftfari, vera við stjórn loftfars, stjórna loftferðum eða veita öryggisþjónustu vegna loftferða sé hann vegna neyslu áfengis, örvandi eða deyfandi lyfja, vegna sjúkdóms eða þreytu eða annarrar líkrar orsakar óhæfur til að rækja starfann á tryggilegan hátt.

Með vísan til hlutverks Flugmálastjórnar, sbr. ofangreinda reglugerð, viljum við beina tveimur spurningum til þín, hr. flugmálastjóri, er varða flugöryggi:

1)  Telur þú að flugumferðarstjóri sem telur sig tímabundið óhæfan til að sinna starfi sínu við flugumferðarstjórn á grundvelli 37. gr. laga um loftferðir eigi samt að mæta til vinnu og sinna störfum sínum frekar en að tilkynna forföll?

2)  Telur þú að það væru ásættanleg, jafnvel æskileg vinnubrögð að stjórnendur íslenskra flugfélaga færu að fordæmi Flugmálastjórnar og þvinguðu flugmenn sína veika til að fljúga með farþega?

Félag íslenskra flugumferðarstjóra hefur talið að þú, hr. flugmálastjóri, deildir með félaginu þeim metnaði fyrir hönd íslenskrar flugumferðarþjónustu að hún verði ekki aðeins rekin með hagkvæmnissjónarmið í huga heldur einnig, og umfram allt, af fullkomnu öryggi.  Félagið hefur því ástæðu til að ætla að ákvörðun um að þvinga veikan flugumferðarstjóra til vinnu hafi verið tekin án þinnar vitundar og samþykkis.

Félagið fer fram á að þú lýsir því yfir að slíkt muni ekki gerast aftur.

Virðingarfyllst,



Loftur Jóhannsson  formaður FÍF
Stefán B. Mikaelsson  ritari FÍF