Vandlifað er í veröld ríkisstjórnar Íslands:


                    Alþjóðasamtök flugumferðarstjóra færa fram, með hófstilltum og skýrum rökum, athugasemdir við hlutafélagavæðingu flugferðarstjórnar hérlendis um áramótin. Geir


                    H. Haarde forsætisráðherra svarar því til að Alþjóðasamtökin séu sýnilega illa upplýst um málið. Hér standi allt eins og stafur á bók nema hvað flugumferðarstjórar ætli sér að ná í kauphækkun út á breytinguna!


                    
                Alþjóðlegt matsfyrirtæki lækkar lánshæfismat ríkissjóðs og sérfræðingur þess segir ákvörðunina endurspegla óábyrga fjármálastefnu íslenskra stjórnvalda í aðdraganda þingkosninga. Forsætisráðherrann svarar því til að matsfyrirtækið skilji ekki fjárlagagerð íslenska ríkisins!


 


Það er vandasamt að eiga orðastað við fólk sem svarar rökstuddum athugasemdum með útúrsnúningi eða vænir viðmælendur sína um að skilja ekki sjálft umræðuefnið. En víst er að Alþjóðasamtök flugumferðarstjóra hafa sett sig vel inn í það mál sem snýr að okkur flugumferðarstjórum á Íslandi og bréf þeirra til forsætisráðherra í gær staðfestir það. Staðreyndin er hins vegar sú að hlutafélagavæðingin er dæmalaust illa undirbúin af hálfu stjórnvalda og af því súpa þau seyðið nú. Það er ódýrt áróðursbragð að halda því fram að barátta flugumferðarstjóra snúist um að krækja í kauphækkun út á breytinguna um áramót. Og það er líka ódýrt áróðursbragð forsætisráðherra að halda því fram við blaðamenn í dag að Félag íslenskra flugumferðarstjóra hafi verið eina stéttarfélagið af sautján sem „hafi ekki samþykkt tilfærslu á hluta af starfsemi Flugmálastjórnar yfir til Flugstoða“ (!). Þessi merkilega fullyrðing kallar á áleitnar spurningar sem forsætisráðherra hlýtur að svara:


1                 Voru stéttarfélögin einhvern tíma spurð álits á hlutafélagavæðingunni?


2                 Reyndust þau öll fylgjandi breytingunni nema flugumferðarstjórar?


 


Ef svo er teljast það mikil tíðindi þó seint komi fram! Flugumferðarstjórar voru í það minnsta ekki spurðir en vissulega lá fyrir að þeir væru andvígir frumvarpi ríkisstjórnarinnar til breytinga á fyrirkomulagi flugumferðarstjórnar þegar það var til meðferðar á Alþingi. Frumvarpið varð hins vegar að lögum og þar við situr. Félag íslenskra flugumferðarstjóra gætir nú hagsmuna síns fólks við breytinguna og nýtur til þess stuðnings alþjóðasamtaka sinna. 


Hvað gengur Félagi íslenskra flugumferðarstjóra til?


Kjarna svars við þeirri spurningu er að finna í eftirfarandi bréfi (tölvupósti) sem formaður stjórnar Flugstoða og lögmaður hans, tveir aðalhöfundar frumvarps til laga umhlutafélagavæðinguna, sendu formanni FÍF 28. september síðastliðinn. Ástráður erlögfræðingur FÍF og sat fundi með formanni FÍF. Við höfum hvorki birt bréfið fyrr né vitnað í það en gerum bréfið nú opinbert. Þarna eru réttilega rakin nokkur atriði sem fulltrúar stjórnvalda og flugumferðarstjóra höfðu orðið sammála um að ræða í tengslum við aðilaskiptin. Í lið nr. iii er til dæmis talað um „skoðun á kjarasamningalegri stöðu við aðilaskiptin, og eftir atvikum viðræður um fyrirkomulag þessa milli aðila“.


Flugumferðarstjórar hafa, allt frá því þetta bréf var sent í haust, beðið eftir og þrýst á að þessar viðræður hæfust. Þeir sem að þessu erindi stóðu gengu hins vegar í raun á bak orða sinna, hvernig sem á því kann að standa. Yfirvöld fengust ekki til að ræða málið þegar á reyndi, þrátt fyrir það sem segir í bréfinu, eins skýrt og það nú er.


Geir H. Haarde ætti því að líta sér nær í stjórnkerfinu þegar hann útnefnir syndaseli og tilgreinir ástæður fyrir því að mál eru komin í hnút. Bréfið talar sínu máli. Félag íslenskra flugumferðarstjóra hefur þar engu við að bæta.


Tölvupóstur frá Ólafi Sveinssyni til Lofts Jóhannssonar 28. september 2006:


From: Ólafur Sveinsson [mailto:olisv@nysir.is]
Sent: 28. september 2006 18:50
To: loftur@iceatca.com
Subject: FW: Drög að texta til Ástr. Haraldssonar vegna fundar í kvöld.


From: Andri Árnason [mailto:andri@jur.is]
Sent: fim. 28.9.2006 16:29
To: Ólafur Sveinsson
Subject: Drög að texta til Ástr. Haraldssonar vegna fundar í kvöld.


Sæll,
vísa til funda okkar með fyrirsvarsmönnum Félags flugumferðarstjóra annars vegar og
Flugstoða ohf. hins vegar varðandi ýmis málefni er varða komandi aðilaskipti í tengslum við
breytingar hjá Flugmálastjórn.


Á fundum okkar hefur komið fram vilji hjá báðum aðilum að hefja viðræður og eftir atvikum
samráð varðandi útfærslu tiltekinna atriða varðandi ofangreind aðilaskipti og önnur málefni
sem skiptar skoðanir hafa verið um um hríð.


Þau atriði sem samhugur er um að taka til nánari skoðunar varða eftirfarandi atriði:  
i) uppsagnir ráðningarsamninga vegna aðilaskiptanna og lagaleg þýðing þeirra m.t.t. laga um aðilaskipti.
ii) Staða starfsmanna vegna lífeyrismála gagnvart Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, þar sem það á við
iii) skoðun á kjarasamningalegri stöðu við aðilaskiptin, og eftir atvikum viðræður um fyrirkomulag þessa milli aðila
iv) athugun á fyrirkomulagi takmarkana á beitingu verkfalls- og verkbannsréttar og athugun viðeigandi mönnunar við slíkar aðstæður
v) athugun á núverandi vaktafyrirkomulagi flugumferðarstjóra og því hvort unnt sé að samræma hagsmuni aðila frekar í því tilliti, sbr. og ráðgerð athugun Eurocontrol.


Það er vilji Flugstoða ohf. að ganga til viðræðna um framangreind atriði á jákvæðan og uppbyggilegan hátt, m.a. með það að markmiði að forsendur samskipta til framtíðar verði báðum aðilum til framdráttar, en viðræður um framangreind atriði eru sem slíkar að sjálfsögðu óskuldbindandi fyrir aðila. 


Með kveðju / Best regards,


Andri Árnason hrl.


mailto:andri@jur.is