Aðild FÍF að BSRB og var samþykkt með dúndrandi lófataki á stjórnarfundi BSRB 1. júní sl.
Loftur Jóhannsson formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra segir að ástæðan fyrir því að ákveðið hefði verið að sækja um aðild að BSRB væri tvíþætt. Í fyrsta lagi hefði það ráðið miklu að til þess að geta átt aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins eftir að flugumferðarstjórnin var færð undir Flugstoðir ohf hefðu félagsmenn þurft að vera í BSRB. Þá skiptir það ekki síður máli að flugumferðarstjórar voru á sínum tíma í BSRB þegar þeir voru innan Félags flugmálastarfsmanna ríkisins.
„Þá höfum við í gegnum árin notið góðs af starfi BSRB, einkum á sviði lífeyrisréttinda og annarra réttinda opinberra starfsmanna. Það gildir að standa saman þegar barist er fyrir sameiginlegum hagsmunum. Nú þegar við erum komnir út úr réttindaumhverfi ríkisstarfsmanna stöndum við á meiri berangri og þá er mikilvægt að treysta á samstöðu við aðra, m.a. aðra félagsmenn BSRB sem líkt er á komið og hjá okkur,“ sagði Loftur.
Ögmundur Jónasson formaður BSRB sagðist fagna þessu mjög. „Ég tel mikinn styrk í því fyrir BSRB að fá félagið til liðs við okkur. Þetta er öflugt stéttarfélag sem hefur oft þurft að heyja stranga baráttu við erfið skilyrði og hefur það aldrei bognað. Þar hefur gilt samstaða og ég fagna mjög að fá félagið í okkar raðir. Það kemur til með að styrkja heildina.“