Valdimar Ólafsson (VO 182) hóf störf hjá Flugmálastjórn Íslands árið 1946 sem loftskeytamaður. Hann varð síðan einn af fyrstu íslensku flugumferðarstjórunum, en hann fékk réttindi 1947. Valdimar aflaði sér réttinda í flestum greinum flugumferðarstjórnar, bæði hér heima og erlendis. Hann varð fyrsti yfirflugumferðarstjóri kennslu og þjálfunar og gegndi störfum yfirflugumferðarstjóra í Reykjavík frá 1974 til 1986 er hann varð yfirflugumferðarstjóri rekstrarsviðs flugumferðarþjónustunnar. Því starfi gegndi hann þar til hann lét af störfum, vegna starfslokaákvæða, í ársbyrjun 1991.

Valdimar var einn af forvígismönnum flugumferðarstjórnar á Íslandi og átti ríkan þátt í þróun hinnar ungu starfsgreinar, sem flugumferðarstjórn var í lok seinni heimsstyrjaldar. Auk kennslu og þjálfunar flugumferðarstjóra kenndi Valdimar flugnemum bókleg fræði til fjölda ára. Því má halda fram að Valdimar hafi, með einhverjum hætti, komið að þjálfun flestra flugumferðarstjóra og flugmanna á Íslandi á síðari helmingi síðustu aldar.


Valdimar var einn af hvatamönnum að stofnun Félags íslenskra flugumferðarstjóra (FÍF) og var fyrsti formaður félagsins, frá 1955 til 1966. Hann tók þátt í undirbúningi að stofnun Alþjóðasamtaka flugumferðarstjóra (IFATCA) í Frankfurt 1959 og var annar af tveimur fulltrúum FÍF á stofnfundi IFATCA í Amsterdam 1961. Valdimar sat fjölda þinga Alþjóðasamtakanna sem fulltrúi íslenskra flugumferðarstjóra.


Valdimar átti frumkvæði að útgáfu flugumferðarstjóratals og vann að því verkefni með aðstoð góðra manna í mörg ár. Því starfi lauk með útkomu glæsilegrar bókar árið 2001 þar sem Valdimar skrifar góðar greinar, m.a. um upphaf flugumferðarstjórnar á Íslandi og ágrip af sögu Félags íslenskra flugumferðarstjóra. Valdimar var kjörinn heiðursfélagi í FÍF á 30 ára afmæli félagsins 1985.


Valdimar var maður athafna, bæði í leik og starfi, og það var eftir honum tekið hvar sem hann fór. Það er mikill sjónarsviptir að slíkum manni. En hann lifir áfram í minningu okkar allra. Íslenskir flugumferðarstjórar þakka Valdimar frábær störf í þágu stéttarinnar og votta eiginkonu hans og fjölskyldu einlæga samúð.


F.h. Félags íslenskra flugumferðarstjóra,


Loftur Jóhannsson


formaður.