Pétur K. Mack, flugmálastjóri

 

Efni: Boðun vinnustöðvunar – minnisblað Flugmálastjórnar Íslands til samgönguráðherra og vottaðra rekstraraðila flugumferðarþjónustu 16. júní 2008

 

Félag íslenskra flugumferðarstjóra (FÍF) hefur undir höndum minnisblað stofnunar þinnar til samgönguráðherra og vottaðra rekstraraðila flugumferðarþjónustu, dags. 16. júní 2008. Nú er ljóst að þegar minnisblaðið er skrifað hafði aðeins verið boðað verkfall hjá ríkisstofnununum tveimur, þ.e. Flugmálastjórn Íslands og Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli en ekki hjá fyrirtækinu Flugstoðir ohf. Fram kemur í minnisblaðinu að gengið er út frá því að verkfall verði boðað hjá Flugstoðum ohf eins og nú hefur verið gert.

 

Í minnisblaðinu eru settar fram þrjár „ályktanir“. Í þeirri fyrstu kemur fram að Flugmálastjórn telji að boðuð verkföll hafi ekki áhrif á stjórnunar og eftirlitshlutverk stofnunarinnar.

 

Í 2. tl. minnisblaðsins segir eftirfarandi um flugumferðarstjóra sem annast beina flugumferðarstjórn hjá tilnefndum rekstraraðilum flugleiðsöguþjónustu:

 

Flugumferðarstjórar sem annast flugumferðarstjórn í loftrými þurfa stöðugt að geta verið í sambandi við þá sem þeir stjórna nánast frá augnabliki til augnabliks. Örlítil frávik frá þessu hafa leitt til alvarlegra slysa og ein megin forsenda til að tryggja flugöryggi í flugleiðsögu er að þetta samband slitni ekki. Að flugumferðarstjóri gangi frá starfstöð sinni eins og virðist vera ætlanin samkvæmt bréfi félags flugumferðarstjóra í 4 klukkustundir á degi hverjum stefnir flugöryggi í slíka hættu að ekki verður með nokkru móti við unað.

 

Ályktun: Að hætt sé að annast flugumferðarstjórn fjórar klukkustundir í senn skapar slíkt hættuástand að til þess má einfaldlega aldrei koma. Starfsstöð má einfaldlega enginn loka án þess að hann hafi fyrir því vissu að flugöryggi sé tryggt.

 

FÍF bendir á að verkföll hjá Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli voru boðuð með lögbundnum 15 daga fyrirvara samkvæmt 16. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Að teknu tilliti til 19. og 20. gr. sömu laga sbr. einnig dóm Félagsdóms frá 7. maí 1998 þar sem kveðið er á um að tveir flugumferðarstjórar skuli vera á vakt í flugturninum á Keflavíkurflugvelli (einn í turni og einn í aðflugi) á hverjum tíma í verkfalli, óskar FÍF upplýsinga um á hvaða forsendum Flugmálastjórn Íslands byggir þá túlkun sína að flugumferðarstjórar í Keflavík „gangi frá starfstöð sinni“ og stefni þannig flugöryggi í þá hættu að ekki verði við unað. Einnig óskar FÍF svara við því hvort Flugmálastjórn Íslands telji að Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli og Flugstoðir ohf muni á engan hátt bregðast við boðuðum verkföllum, þrátt fyrir lögbundinn fyrirvara, og hvernig slíkt geti samrýmst ákvæðum gr. 8.2 í viðauka I við reglugerð nr. 535/2006 um viðbúnaðaráætlanir.

 

 

Í niðurlagi minnisblaðsins segir eftirfarandi:

 

Ályktun: Ekki verður annað séð á þessari stundu en að rekstraraðilum flugleiðsöguþjónustu beri að tryggja að engin flugumferð verði í því stjórnaða loftrými sem þeir annast á þeim tíma sem verkfall er boðað og leggi fram gögn til Flugmálastjórnar Íslands um hvernig það verður gert.

 

Í ljósi þess hér hefur verið rætt og með sérstöku tilliti til bréfs FÍF til forstjóra Flugstoða, dags. 18. júní 2008, um framkvæmd verkfalla hjá Flugstoðum, sem Flugmálastjórn hefur afrit af, spyr FÍF hvort Flugmálastjórn telji ástæðu til að endurskoða þær ályktanir sem fram eru settar í minnisblaðinu.

 

Virðingarfyllst,

Loftur Jóhannsson

formaður FÍF