Það tók samninganefnd Samtaka atvinnulífsins/ríkisins heilar tíu mínútur að meta nýtt tilboð sem Félag íslenskra flugumferðarstjóra lagði fram á fundi ríkissáttasemjara eftir hádegið í dag og svara síðan með því að segja þvert nei.
Ekki urðu önnur viðbrögð við útspili flugumferðarstjóra. Ekkert gagntilboð og yfirleitt engin hreyfing sem benti til samningsvilja. Þetta gerðist þrátt fyrir að flugumferðarstjórar hefðu í tvígang aflýst boðuðum verkföllum, í fyrra skiptið í ljósi fyrirheits um að menn með skýrt samningsumboð ríkisins kæmu að samningaborði og reynt yrði að ljúka málinu þar.
Eftir á að hyggja bendir flest til þess að ríkisstjórnin hafi frá upphafi verið ákveðin í að „leysa“ kjaradeiluna með lögum en ekki samningum.
Enginn sáttafundur hefur verið boðaður í deilunni og reyndar er vandséð hvaða tilgangi frekari fundahöld þjóna ef viðsemjandinn hefur ekki annað fram að færa en að sveifla sverði yfir höfðum flugumferðarstjóra og hóta valdbeitingu með lögum. Það sverð kann að reynast tvíeggjað.