Alþjóðasamtök flugumferðarstjóra, IFATCA, hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem samtökin fordæma dóm yfir tveimur flugumferðarstjórum sem voru á vakt á Cagliari flugvelli á Ítalíu þann 24. febrúar 2004. Þann dag varð flugslys þar sem Cessna Citation flaug í jörðu. Flugumferðarstjórarnir höfðu áður verið dæmdir en áfrýjuðu dómnum. Hann var svo staðfestur þann 18. mars sl.
Í umræddu slysi óskaði flugmaður eftir sjónaðflugi að flugvellinum. Flugumferðarstjóri bað sérstaklega að staðfesta að flugmaður myndi sjálfur sjá um aðskilnað við hindranir og játaði flugmaður því. Skv. gildandi reglum var engin ástæða fyrir flugumferðarstjórann að hindra sjónaðflug, hann hafi jafnvel gengið lengra en reglur sögðu til um með því að biðja flugmann sérstaklega að staðfesta að hann gæti séð um aðskilnað frá hindrunum.
Í tilkynningu frá samtökunum kemur fram að þetta sé enn eitt dæmið um skilningsleysi yfirvalda á því hvernig flugöryggismálum er háttað. Slíkur dómur grafi alvarlega undan flugöryggi. Það megi aldrei sækja flugumferðarstjóra til saka fyrir að sinna starfi sínu af elju og skv. reglum.
Sjá tilkynningu IFATCA: IFATCA Press Release Italy 29.3.2010