Evrópusamtök flugumferðarstjóra (ATCEUC) eru heildarsamtök 28 stéttarfélaga flugumferðarstjóra og undir samtökin falla 14.000 flugumferðarstjórar sem starfa í Evrópu. Samtökin hafa háð mikla baráttu í tengslum við innleiðingu Single European Sky með áherslu á öryggismál í flugumferðarþjónustu. Til þess að þrýsta á baráttumál sín hafði ATCEUC boðað aðgerðir allra evrópskra flugumferðarstjóra þann 10. október sl.
Í kjölfar fundar með framkvæmdastjórn Evrópusambandsins á Möltu í byrjun október samþykkti ATCEUC að aflýsa aðgerðunum þar sem framkvæmdastjórnin gaf loforð um að sjónarmið ATCEUC varðandi öryggi og óraunhæfan niðurskurð yrði tekið til greina.
Þrátt fyrir loforðið hélt framkvæmdastjórnin áfram með viðræður þar sem sjónarmið ATCEUC fengu ekki að heyrast. Auk þess var beiðni ATCEUC um óháða úttekt á öryggismálum hafnað og telja samtökin það sýna að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi aldrei ætlað sér að vinna með ATCEUC í tengslum við Single European Sky og tilgangurinn hafi aðeins verið að lægja öldurnar fyrir næsta skipulagsfund Single Sky Committee.
Ef framkvæmdastjórn Evrópusambandsins heldur áfram að þvinga tillögur sínar ofan í aðila án þess að efna til málefnalegrar og opinnar umræðu mun ATCEUC efna til sameiginlegra aðgerða í Evrópu strax í janúar 2014.
Hér má sjá fréttatilkynninguna frá ATCEUC: Fréttatilkynning frá ATCEUC í desember 2013