Alþjóðasamtök flugumferðarstjóra, IFATCA, hafa sent frá sér harðorða yfirlýsingu þar sem samtökin fordæma rússnesk yfirvöld vegna ákvörðunar um að ákæra flugumferðarstjóra sem voru á vakt á Vnukovo flugvellinum í Moskvu þann 20. október sl þegar frönsk einkaþota fórst eftir árekstur við snjóruðningstæki. Rannsókn á slysinu er enn í gangi og því ótímabært að ráðast í slíkar aðgerðir. Rannsóknarteymið gaf út yfirlýsingu 24. október þar sem atburðarrásinni er lýst í grófum dráttum. Ekkert í þeirri yfirlýsingu gefur tilefni til að ætla að vanræksla af hálfu flugumferðarstjóranna hafi verið orsakavaldur slyssins.

Með því að ákæra flugumferðarstjórana og gefa út nöfn þeirra eru rússnesk stjórnvöld að vega alvarlega að Just culture sem er umhverfi þar sem leitast er við að finna skýringar óhappa og slysa án þess að leita að sökudólg. Rússnesk stjórnvöld samþykktu, ásamt 169 öðrum ríkjum, að innleiða just culture í flugheiminum á 37. ársfundi ICAO árið 2010. Þessi ákæra er ekki í samræmi við þær skuldbindingar. Með því að ráðast gegn einstaklingum með þessum hætti er hætt við að menn veigri sér við að tilkynna um óhöpp og þannig ógnar ákæran umhverfi þar sem öll spilin eru lögð á borðið og allir hjálpast að við að gera flug öruggara.

Það getur haft verulega truflandi áhrif á rannsóknina og beinlínis verið hættulegt fyrir viðkomandi flugumferðarstjóra að nöfn þeirra skuli hafa verið gefin út og fordæmir IFATCA slíkt.

Yfirlýsinguna í heild má lesa hér fyrir neðan.

IFATCA_PR_Russia_311014