Svan H. Trampe, fyrrverandi flugumferðarstjóri, er látinn.
Svan tók grunnnám í flugumferðarstjórn hjá Flugmálastjórn fyrri hluta árs 1954 og hóf störf hjá Flugmálastjórn 20. apríl 1955. Hann tók TWR og APP réttindi í Reykjavík 8. maí 1959, OAC og ACC réttindi 29. desember 1961 og ratsjárréttindi 1973 eftir námskeið hjá IAL í London.
Hóf störf við „Correlation“, þ.e. tilkynningar um flugumferð til ratsjárstöðvar varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, í gamla flugturninum í Reykjavík samhliða verklegu námi og lauk öllum réttindum flugumferðastjóra í Reykjavík. Starfaði í flugstjórnarmiðstöðinni eftir flutning í nýrri byggingu í árslok 1961, sem flugumferðarstjóri og varðstjóri í afleysingum fyrstu árin en var varðstjóri í flugstjórnarmiðstöðinni mörg síðustu starfsár sín. Hætti störfum hjá Flugmálastjórn vegna starfslokaákvæða.
Svan var kjörinn í varastjórn FÍF 1966 og ritari stjórnar samfellt frá 1967 til 1970. Starfaði í orlofshúsanefnd, var formaður trúnaðarráðs, í nefnd til skipulags námstilhögunar í flugumferðarstjórn, prófdómari við verkleg og bókleg stöðupróf flugumferðarstjóra og fulltrúi FÍF á IFATCA-þingum.
Útför hans fer fram frá Seljakirkju fimmtudaginn 10. september kl. 13.