fif_logo_smallFélagsfundur í Félagi íslenskra flugumferðarstjóra þann 8. júní 2016 lýsir yfir miklum vonbrigðum með inngrip stjórnvalda í kjaradeilu félagsins við Isavia. Vakin er athygli á því að flugumferðarstjórar hafa ekki verið í verkfalli heldur yfirvinnubanni sem að mati fundarins eru mildar en nauðsynlegar aðgerðir til þess að ná eyrum og skilningi stjórnvalda og samninganefndar þeirra fyrir hönd Isavia.

Það vekur mikla furðu að í þeim lögum sem nú hafa verið sett á aðgerðir flugumferðarstjóra skuli þeim gerðardómi sem ráðherra mun skipa settar fyrirfram ákveðnar skorður við niðurstöðu sína. Með fyrirmælum alþingis er gerðardómi gert að úrskurða í takti við kjarasamninga undanfarinna missera. Um leið er honum fyrirskipað að horfa framhjá þeirri grundvallarkröfu flugumferðarstjóra að tekið sé tillit til þess hve mjög þeir hafa dregist aftur úr öðrum hópum launafólks á því fimm ára tímabili sem samið var til árið 2011.

Vakin er athygli á því að u.þ.b. fimmta hver klukkustund hjá flugumferðarstjórum hefur, vegna manneklu í stéttinni, verið unnin í yfirvinnu. Flugumferðarstjórar munu sem fyrr sinna öllum lögbundnum skyldum sínum en fundurinn ítrekar að þrátt fyrir lagasetninguna er hverjum og einum flugumferðarstjóra í sjálfsvald sett hvort hann vinni yfirvinnu.

Fundurinn lætur í ljós von um að samningar takist við Isavia innan þess frests sem lögin gera ráð fyrir. Jafnframt harma fundarmenn að stjórnvöld hafi ekki sýnt launaþróun flugumferðarstjóra á undanförnum árum meiri skilning en speglast hefur í viðhorfi samninganefndar Samtaka atvinnulífsins fyrir hönd Isavia og um leið ríkisins.

Reykjavík 9. júní 2016

Nánari upplýsingar veitir Sigurjón Jónasson, formaður FÍF
formadur@iceatca.com
S: 861-0050