Aðalfundur BSRB sem haldinn var fimmtudaginn 28. maí 2020 átaldi Isavia fyrir uppsagnir á flugumferðarstjórum en Félag íslenskra flugumferðarstjóra er eitt aðildarfélaga BSRB.
„Ríkur skilningur er á þörf félagsins til að hagræða í rekstri en það er óskiljanlegt að slíkar ákvarðanir séu teknar án þess að haft sé raunverulegt samráð við Félag íslenskra flugumferðarstjóra. Félagið hefur lagt fram tillögur til að mæta vandanum sem byggja á samstöðu og sátt allra flugumferðarstjóra. Isavia ANS hefur hunsað þær tillögur og þess í stað valið leið sem brýtur í bága við kjarasamning,“ segir meðal annars í ályktuninni.
„Aðalfundur BSRB skorar á Isavia ANS að draga uppsagnirnar tafarlaust til baka og beita lögmætum og sanngjörnum aðferðum í sátt við starfsfólk sitt til að mæta þeim tímabundnu áskorunum sem félagið stendur frammi fyrir. Það er mikilvægt til framtíðar fyrir fyrirtæki sem keppir um hæft starfsfólk á alþjóðamarkaði að viðhalda starfsánægju og tryggð starfsmanna,“ segir þar ennfremur.
Ályktun aðalfundar BSRB 2020 um uppsagnir flugumferðarstjóra