Á fundi hjá ríkissáttasemjara í dag lagði Félag íslenskra flugumferðarstjóra (FÍF) fyrir viðsemjendur sína tillögu að lausn yfirstandandi kjaradeilu. Jafnframt aflýsti félagið boðuðum verkföllum flugumferðarstjóra á morgun, miðvikudaginn 17. mars, og á föstudaginn kemur, 19. mars.
FÍF vill þannig gefa ríkissáttasemjara og samninganefndum beggja aðila ráðrúm til að fjalla um hugmyndir FÍF til lausnar deilunni, án þess að yfir vofi verkfall. Félagið mun að sinni ekki tjá sig opinberlega um tillögur sínar.
FÍF staðfestir með þessari ákvörðun eindreginn vilja sinn til samninga og hvetja jafnframt ríkisstjórnina og Samtök atvinnulífsins (samninganefnd ríkisins) til að tileinka sér þau viðhorf Alþjóðaflutningaverkamannasambandsins, sem fram komu í bréfi til Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra í morgun, að ríkisstjórnin eigi nú að leggja sig fram um að semja við flugumferðarstjóra og hætta að hóta íhlutun í kjaradeiluna með lagasetningu.