Dagana 2-5. október var 56. ársþing ATCA (Air Traffic Control Association) haldið í Washington DC í Bandaríkjunum. Á þinginu var fjölmargt á dagskrá en þann 3. október kl. 14:00 voru á dagskrá pallborðsumræður undir yfirskriftinni Jarðskjálftar, flóðbylgjur, eldfjöll, já sæll! Í þeim tóku þátt fulltrúi frá japönsku flugmálastjórninni, FAA, Harris Corporation (fyrirtæki sem rekur mest allan jarðbúnað fyrir FAA í Bandaríkjunum), Eurocontrol, Veðurstofu Bandaríkjanna og fulltrúi frá FÍF: Sigurður H. Jóhannesson (SJ).
Fjallað var um áhrif jarðskjálftanna í Japan á flugsamgöngur, um samskipti þjóða þegar upp koma óvænt atvik, um það hve miklu skiptir fyrir rekstur jarðstöðva að fá góðan fyrirvara á óveður, um hvernig hægt er að bregðast við atvikum eins og eldgosi með flæðisstjórn og eins var fjallað um hverjar næstu ógnir væru í flugheiminum en líklegt er að sólgos muni hafa meiri áhrif á flugumferð á næstu árum með tilheyrandi áhrifum á GPS tæki. Þá sagði Sigurður H. Jóhannesson frá því hvernig íslenskir flugumferðarstjórar brugðust við þegar umferð í svæðinu margfaldaðist vegna eldgossins í Eyjafjallajökli í maí 2010.
Sigurður sagði frá því að á fyrstu vikum eldgossins hefði lítil sem engin umferð verið í íslenska svæðinu. En föstudaginn 7. maí breyttist það. 12 flugumferðarstjórar voru á vakt í flugstjórnarmiðstöðinni og búist var við 300 vélum í gegnum svæðið. En þar sem eina færa leiðin á milli Evrópu og Bandaríkjanna/Kanada var norður fyrir Eyjafjallajökul og flugumferð hafði verið stöðvuð í Evópu í langan tíma fjölgaði vélum talsvert og urðu yfir 600 þennan föstudag. Fjöldi flugumferðarstjóra var kallaður út og má segja að þeir hafi sett líf sitt á bið í fimm daga á meðan holskeflan gekk yfir.
Næstu daga hélt umferðin áfram að aukast og fór mest í 1019 vélar yfir einn sólarhring þann 11. maí 2010. Settir voru upp flugferlar í gegnum svæðið og voru þeir forsendan fyrir því að hægt væri að taka á móti svo mikilli umferð.