Reykjavík 31.desember 2006 

 

 

Samgönguráðherra

Hr. Sturla Böðvarsson

 

Öryggisnefnd FÍF lýsir yfir áhyggjum yfir þeim aðstæðum sem eru í uppsiglingu við aðilaskipti í íslenska flugumferðarstjórnarsvæðinu nú um áramót.  Nefndin fær ekki betur séð en að flugöryggi muni skerðast verulega ef að til þess kemur að viðbúnaðaráætlun Flugstoða ohf verður virkjuð og látin ganga í einhvern tíma.  Ekki einasta verður þá sett í framkvæmd áætlun sem er í senn flókin og lítt kunn þeim sem eiga að vinna eftir henni, heldur er svo að sjá að hún eigi að framkvæmast með hugsanlega mikilli flugumferð af afar fáum flugumferðarstjórum. 

 

Nefndin hefur sérstaklega áhyggjur af flugöryggi í innanlandsdeild og í nágrenni flugvallanna í Reykjavík og á Akureyri.  Að halda því fram að flugöryggi skerðist ekkert við það að fækka verulega starfsfólki sem sinnir annars einmitt því, og leggja niður ratsjárþjónustu, öll venjuleg talviðskipti við flugvélar og í raun flugumferðarstjórn eins og til stendur er auðvitað fásinna.

 

Gífurlegur árangur hefur náðst í flugöryggismálum í hinum vestræna heimi á síðustu áratugum og er það fyrst og fremst að þakka fólki sem aldrei hefur sætt sig við neinar málamiðlanir í þessum efnum.  Því má það ekki gerast nú á fyrstu starfsdögum hins nýja félags Flugstoða ohf að þeim frábæra árangri sem við Íslendingar höfum náð á þessu sviði sé einfaldlega kastað fyrir borð.  Hinn fljúgandi almenningur sættir sig ekki við neitt minna en að á hverjum tíma sé öryggi hans og velferð í fyrirrúmi.  Fagfólki í flugheiminum finnst það líka sjálfsagt.

 

Öryggisnefnd FÍF skorar því á Samgöngu- og Flugmálayfirvöld að grípa þegar í stað til ráðstafana sem megi verða til þess að ekki þurfi að koma til þess að viðbúnaðaráætlunin verði virkjuð og flugöryggi í íslenska flugstjórnarsvæðinu og nágrenni þess ógnað að óþörfu.

 

 

Virðingarfyllst,

 

Öryggisnefnd FÍF,

 

Óskar Óskarsson,

Einar Hilmarsson,

Kjartan Halldórsson,

Hilmar Magnússon.