Aðalfundur FÍF


Aðalfundur FÍF verður haldinn í Borgartúni 28 miðvikudaginn 28. febrúar kl. 20:00.

Dagskrá:



  1. Skýrsla félagsstjórnar um störf á liðnu ári.
  2. Skýrslur nefnda.
  3. Endurskoðaðir reikningar síðasta árs lagðir fram til samþykktar.
  4. Lagabreytingar, enda hafi tillögur um þær borist stjórn félagsins fyrir 10. janúar og verið kynntar félagsmönnum með kjörgögnum.
  5. Talin atkvæði og lýst kjöri stjórnar og tveggja varamanna.
  6. Kosning trúnaðarráðs og tveggja skoðunarmanna ársreikninga.
  7. Ákvörðun styrkja úr sjúkrasjóði og kostnaðargreiðslur til stjórnar.
  8. Önnur mál.

    1. Aðildarumsókn FÍF að BSRB – kosning.
    2. Annað.

Lagabreytingartillögur:

Stjórn FÍF leggur til að gangi FÍF í BSRB skuli 32. gr. laga FÍF hljóða svo: FÍF skal eiga aðild að sjúkrasjóði BSRB.

Ef aðalfundur ákveður að FÍF sæki um aðild að BSRB og hún verður samþykkt af BSRB er eðlilegt að ganga í sjúkrasjóð samtakanna og leggja niður sérstakan sjúkrasjóð FÍF. Gjöldin sem nú renna til sjúkrasjóðs FÍF rynnu þá til sjúkrasjóðs BSRB. Það tekur sex mánuði að öðlast réttindi til að fá greitt úr sjóðnum og þann tíma myndi sú inneign sem eftir stæði í núverandi sjúkrasjóði verða nýtt ef þörf krefur.

 

Kosning stjórnar:

18. gr. laga FÍF er svohljóðandi:

Stjórn félagsins skipa formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi. Félagsstjórn skal kosin í allsherjaratkvæðagreiðslu. Á hverju ári skal kosinn formaður til eins árs og tveir stjórnarmenn til tveggja ára auk tveggja varamanna til eins árs. Stjórnin skipar með sér störfum. Ef stjórnarmaður lætur af störfum áður en seinna starfsár hans hefst skal á aðalfundi kjósa nýja stjórnarmanninn til loka seinna starfsársins. Kjörgögn í stjórnarkjöri skulu send félagsmönnum a.m.k. 15 dögum fyrir aðalfund. Í umslagi með nafni félagsmanns skal vera ómerkt umslag og einn atkvæðaseðill. Atkvæðaseðli skal skipt í þrjá reiti, 1. reitur skal merktur „formaður“, 2. reitur skal merktur „stjórnarmenn“, 3. reitur skal merktur „varamenn“. Kjósandi skal rita nafn þess er hann kýs sem formann í reitinn merktur formaður, nöfn þeirra tveggja er hann kýs sem stjórnarmenn í reitinn merktur stjórnarmenn, röð nafna skiptir ekki máli, og nöfn þeirra tveggja er hann kýs sem varamenn í reitinn merktur varamenn, röð nafna skiptir ekki máli. Nafn hvers einstaklings má einungis skrifa einu sinni á hvern atkvæðaseðil, þ.e. sem formann eða stjórnarmann eða varamann. Sá sem flest atkvæði hlýtur sem formaður telst kjörinn formaður. Þeir tveir teljast kjörnir stjórnarmenn sem ekki ná kjöri sem formaður en fá flest atkvæði samanlagt sem formaður og stjórnarmenn. Þeir tveir teljast kjörnir varamenn sem ekki ná kjöri sem formaður eða stjórnarmenn en fá flest atkvæði samanlagt sem formaður, stjórnarmenn og varamenn.

Loftur Jóhannsson gefur aftur kost á sér til formennsku. Þeir tveir stjórnarmenn sem eru að ljúka tveggja ára tímabili eru Davíð Hansson og Ottó Eiríksson. Þeir gefa báðir kost á sér áfram. Jón Ágúst Guðmundsson hefur einnig hug á að starfa í stjórninni. Allir félagsmenn eru í kjöri.