Í fréttatilkynningu sem Alþjóðasamtök flugumferðarstjóra (IFATCA) hafa sent frá sér er vakin athygli á nýlegum héraðsdómi sem fallið hefur í Bülach í Sviss. Þar voru fjórir millistjórnendur hjá fyrirtækinu Skyguide sakfelldir í tengslum við árekstur tveggja flugvéla sem varð yfir Uberlingen árið 2002. Sami dómstóll sýknaði fjóra aðra starfsmenn þar á meðal flugumferðarstjóra og tæknimenn.
Í tilkynningunni er vakin athygli á þeirri staðreynd að rétturinn dragi ekki eingöngu til ábyrgðar starfsmenn á vakt heldur sé gert ráð fyrir að ábyrgð í slíkum málum liggi á öllum stigum starfseminnar. Þetta telja samtökin jákvæða þróun þegar um sé að ræða jafn flókin félagsleg og tæknileg samskipti og við stjórn flugumferðar.
Í tilkynningunni er hins vegar lýst áhyggjum yfir því hvernig haldið er áfram að lýsa mannlegum mistökum sem glæpsamlegum atvikum. Hvort sem slík mál tengist flugumferðarstjórum, tæknimönnum eða stjórnendum sé málatilbúnaður af því tagi til þess fallinn að torvelda nauðsynlegt flæði öryggisupplýsinga í starfsemi þar sem öryggismál eiga sér mikla og langa hefð.
Í tilkynningu IFATCA er áréttuð sú skoðun að í starfsemi þar sem öryggi skipti öllu máli beri að gera þá kröfu að hver og einn starfsmaður sé ábyrgur gerða sinna. Engu að síður hafi reynslan sýnt að lögsóknir stuðli ekki að auknu öryggi. Samtökin hvetja til þess að menn sýni sanngirni í umræðum um þessi mál enda sé það mun betur til þess fallið að stuðla að auknu flugöryggi.