Félag íslenskra flugumferðarstjóra                                                                       


 


 

Fréttatilkynning


18. júní 2008

 

Takmörkuð  vinnustöðvun til að knýja á að tillögur ríkisins frá 1997 komi til framkvæmda

 

Félag íslenskra flugumferðarstjóra (FÍF) hefur boðað 20 stuttar vinnustöðvanir dagana 27. júní til 20. júlí nk.. Verkfallsboðunin nær til allra starfandi flugumferðarstjóra í landinu  hjá Flugmálastjórn Íslands, Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli og hjá Flugstoðum. Stjórn og trúnaðarráð Félags íslenskra flugumferðarstjóra gerðu tillögu um 20 sjálfstæðar fjögurra klukkustunda vinnustöðvanir og voru þær samþykktar í almennri leynilegri atkvæðagreiðslu sem fór fram meðal flugumferðarstjóra dagana 9.-10. júní síðast liðinn. Greidd voru atkvæði um hverja vinnustöðvun fyrir sig, eins og gerð er nánari grein fyrir í meðfylgjandi töflu og voru þær allar samþykktar nánast einróma:

 













































































































Vinnustöðvun

Dagsetning

Vikudagur

Frá kl. – til kl.

1

27.06.2008

föstudagur

07:00 – 11:00

2

30.06.2008

mánudagur

07:00 – 11:00

3

02.07.2008

miðvikudagur

07:00 – 11:00

4

03.07.2008

fimmtudagur

08:00 – 12:00

5

04.07.2008

föstudagur

09:00 – 13:00

6

05.07.2008

laugardagur

07:00 – 11:00

7

06.07.2008

sunnudagur

08:00 – 12:00

8

07.07.2008

mánudagur

09:00 – 13:00

9

08.07.2008

þriðjudagur

07:00 – 11:00

10

09.07.2008

miðvikudagur

08:00 – 12:00

11

10.07.2008

fimmtudagur

09:00 – 13:00

12

11.07.2008

föstudagur

07:00 – 11:00

13

12.07.2008

laugardagur

08:00 – 12:00

14

13.07.2008

sunnudagur

09:00 – 13:00

15

14.07.2008

mánudagur

07:00 – 11:00

16

16.07.2008

miðvikudagur

07:00 – 11:00

17

17.07.2008

fimmtudagur

08:00 – 12:00

18

18.07.2008

föstudagur

09:00 – 13:00

19

19.07.2008

laugardagur

07:00 – 11:00

20

20.07.2008

sunnudagur

07:00 – 11:00

 

 

 

Þrátt fyrir að flugumferðarstjórum sem vinna hjá Flugstoðum beri ekki skylda til að sinna störfum í verkfalli hefur FÍF ákveðið að flugumferðarstjórar sinni störfum í verkföllum sem boðuð hafa verið á tímabilinu 27. júní 2007 til og með 20. júlí 2007 með eftirfarandi hætti:

 


  1. Einn flugumferðarstjóri verði að störfum í flugturnunum á Reykjavíkurflugvelli, Akureyrarflugvelli og Vestmannaeyjaflugvelli á meðan verkfall stendur. Flugumferðarstjórarnir sinni eingöngu sjúkra- og neyðarflugi.

 


  1. Í fyrstu tveimur verkföllunum, þ.e. 27. og 30. júní, verði veitt full þjónusta í úthafssvæðinu, þ.e. flugumferðarstjórar sem hafa skipulagðar vaktir þessa daga sinni störfum sínum með venjulegum hætti að því undanskyldu að flugumferð sem áætlar að lenda á íslenskum flugvöllum á tíma verkfallanna fær ekki heimild til flugs inn í svæðið nema um neyðartilvik eða sjúkraflug sé að ræða. Þá verða heimiluð tvö flugtök á klukkustund frá Keflavík eingöngu vegna áætlunarflugs frá Íslandi til útlanda. Þessi undanþága nær eingöngu til starfa flugumferðarstjóra sem sinna flugumferðarstjórn í flugstjórnarmiðstöðinni, þ.m.t. varðstjóra/aðalvarðstjóra. Í ljósi reynslu af framkvæmd í fyrstu tveimur verkföllunum mun FÍF taka afstöðu til þess hvort þetta fyrirkomulag verði einnig í þeim verkföllum sem eftir eru ef til þeirra kemur.

 


  1. Ef FÍF metur það svo að ekki sé rétt að halda áfram því fyrirkomulagi sem lýst er í lið 2, gildir eftirfarandi:

Í flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík verði einn til þrír flugumferðarstjórar að störfum í samræmi við dóm Félagsdóms frá 7. maí 1998 og sinni yfirflugi um úthafssvæðið samkvæmt viðbúnaðaráætlun sem unnið var eftir í verkfalli flugumferðarstjóra í febrúar 2001 og samþykkt var af Alþjóðaflugmálastofnuninni (ICAO). Flugumferð sem áætlar að lenda á Íslandi eða að hefja flug frá íslenskum flugvöllum á þeim tíma sem verkfall stendur fái ekki til þess heimild nema um neyðartilvik eða sjúkraflug sé að ræða.

 

Markmið FÍF

Þær takmörkuðu aðgerðir sem nú er gripið til eiga sér langan aðdraganda en með þeim freistar Félag íslenskra flugumferðarstjóra þess að þrýsta á stjórnvöld/Flugstoðir að hrinda í framkvæmd tillögum sem svokölluð réttarstöðunefnd á vegum ríkisstjórnarinnar skilaði 30. júní 1997. Niðurstaða nefndarinnar var einróma og líta flugumferðarstjórar svo á að hún sé ígildi kjarasamnings. Flugumferðarstjórar telja sig knúna til að beita verkfallsvopni til að knýja á um að tillögur ríkisvaldsins um ráðstafanir sem eiga að tryggja rekstraröryggi flugumferðarþjónustunnar og sem birtast í nefndarálitinu komist til framkvæmda. Sáttatilraunir Ríkissáttasemjara í deilunni hafa til þessa reynst árangurslausar.

 

Markmið FÍF í kjarasamningum 2008 taka mið af niðurstöðum réttarstöðunefndar frá 1997. Megin áhersla hefur verið lögð á að minnka óhóflegt vinnuálag og leiðrétta kjör flugumferðarstjóra til samræmis við kjör atvinnuflugmanna sem er sú stétt sem nefndin telur hafa samsvarandi ábyrgð og flugumferðarstjórar.  

 

Flugumferðarstjórum á Íslandi hefur ekki fjölgað í samræmi við aukin umsvif í flugi á íslenska flugstjórnarsvæðinu á undanförnum árum, sem hefur að jafnaði verið 7-8% á ári. Flugumferð um íslenska flugstjórnarsvæðið fyrstu fimm mánuði þessa árs hefur aukist um 13,2% frá því sem var fyrstu fimm mánuði síðasta árs, sem þó var metár. Flugumferðarstjórar hafa alla tíð unnið óhóflega mikla yfirvinnu til að sinna þeirri þjónustu sem íslensk stjórnvöld hafa tekið að sér í flugumferðarstjórn. Nauðsynlegt er því að fjölga flugumferðarstjórum og draga úr yfirvinnu. 

 

Í yfirlýsingu heildarsamtaka opinberra starfsmanna og ríkisins í tengslum við endurnýjun kjarasamninga ríkisstarfsmanna veturinn 2004 – 2005 voru aðilar sammála um að fara í gagngera endurskoðun á málefnum vaktavinnustarfsmanna með það að markmiði að bæta vinnufyrirkomulag þeirra og gera vaktavinnuna eftirsóknarverðari. Sérstaklega skyldi skoða kjör og lengd vinnutíma. Rannsóknir benda til þess að vaktavinna sé meira slítandi en annað fyrirkomulag vinnu og erfitt er að manna nætur-, helgar- og stórhátíðarvaktir á stofnunum. Aðilar lýstu því yfir að finna þyrfti leiðir til þess að mæta þessum erfiðleikum með hag starfsmanna og stofnana fyrir augum. Það er markmið FÍF að kjör flugumferðarstjóra í vaktavinnu verði bætt og vinnuskylda þeirra stytt.

 

Á samningafundum í vetur og vor með samninganefnd Samtaka atvinnulífsins (SA), sem fer með samningsréttinn fyrir hönd Flugstoða, hefur þeim tillögum sem fram eru settar í réttarstöðunefndarskýrslunni verið hafnað og SA neitað að semja við flugumferðarstjóra um sambærileg kjör og samtökin hafa samið um við þá stétt í fluggeiranum sem hefur samsvarandi ábyrgð. Nú stefnir sem sagt enn í röskun á flugumferðarþjónustunni vegna deilna um kjaramál þrátt fyrir að fyrir liggi fyrirvaralausar tillögur fjármála-, samgöngu- og utanríkisráðuneytis, Flugmálastjórnar og Félags íslenskra flugumferðarstjóra um leiðir til að koma í veg fyrir að slíkt ástand skapist.

 

 

 

F.h. Félags íslenskra flugumferðarstjóra (FÍF)

 

Loftur Jóhannsson
formaður FÍF

sími: 861 0050