Annáll kjaradeilunnar
- 1995: Níu af hverjum tíu flugumferðarstjórum á Íslandi sögðu upp störfum árið 1995 og hugðust hætta um áramót 1995/96. Sú deila leystist til bráðabirgða með yfirlýsingu samgönguráðherra í samráði við fjármála- og utanríkisráðherra 29. desember 1995 þar sem kveðið var á um skipan nefndar fulltrúa þessara þriggja ráðuneyta og flugumferðarstjóra til að gera úttekt á réttarstöðu flugumferðarstjóra.
- 1997: Réttarstöðunefndin lauk störfum og skilaði skýrslu til samgönguráðherra 30. júní 1997. Allir nefndarmenn skrifuðu undir nefndarálitið án fyrirvara, þ.e.a.s. fulltrúar samgönguráðherra, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra auk Flugmálastjórnar svo og fulltrúar Félags íslenskra flugumferðarstjóra. Nefndin lagði til margvíslegar úrbætur. Meðal annars. var lögð áhersla á að draga úr yfirvinnu flugumferðarstjóra, fjölga flugumferðarstjórum, semja til lengri tíma um kaup og kjör flugumferðarstjóra og að taka mið af sérstöðu flugumferðarstjóra, og kröfum sem til þeirra eru gerðar, við ákvörðun launakjara.
- 1997: Nýir kjarasamningar flugumferðarstjóra voru undirritaðir 8. september 1997. Þá gaf samgönguráðherra enn út yfirlýsingu þar sem sagði að samgönguráðuneytið myndi taka fyrrnefnda réttarstöðuskýrslu til athugunar með þátttöku flugumferðarstjóra, Flugmálastjórnar og annarra sem málið varðaði.
- 2000: Ekkert bólaði enn á efndum yfirlýsinga um að hrinda í framkvæmd úrbótum og tillögum réttarstöðunefndar. Samgönguráðherra vísaði ábyrgð á hendur samninganefnd ríkisins/fjármálaráðherra á þeirri forsendu að um kjarasamningamál væri að ræða. Samninganefnd ríkisins lýsti hins vegar yfir að henni kæmi réttarstöðuskýrslan ekkert við og vísaði á samgönguráðherra. Kjarasamningur flugumferðarstjóra rann út 1. nóvember 2000. Viðræður leiddu í ljós að stjórnvöld ætluðu að hafa að engu tillögur réttarstöðunefndar frá 1997.
- 2001: Flugumferðarstjórar boðuðu verkfall 20. febrúar 2001. Eftir að verkfallið hafði staðið í 16 klukkustundir var skrifað undir skammtímasamning til 15. nóvember 2001. Þar var kveðið á um viðræðuáætlun flugumferðarstjóra annars vegar og stjórnvalda hins vegar til að ná samkomulagi um kjarasamning. Vísað var til réttarstöðuskýrslunnar frá 1997 í því sambandi. Í viðræðuáætluninni, sem var hluti kjarasamningsins og undirrituð af fulltrúm samgönguráðuneytis, utnaríkisráðuneytis og fjármálaráðuneytis auk fulltrúa FÍF, segir:
Aðilar eru sammála um að kanna til hlítar á samningstímanum möguleika á því að breyta samningsréttarlegri stöðu flugumferðarstjóra og kjaratilhögun þeirra í því skyni að tryggja betur stöðu og þjónustu flugumferðarstjórnar sbr. “Nefndarúttekt á réttarstöðu flugumferðarstjóra” frá júní 1997. Athuga þarf sérstaklega og ná samkomulagi um hver ætti að vera viðmiðun kjara flugumferðarstjóra og hvernig háttað verði aðlögun að þeirri viðmiðun.
Ráðuneyti þau er að málum flugumferðarstjóra koma hafa fallist á þessi sameiginlegu markmið.
- 2001: Samningaviðræður hófust að nýju við samninganefnd ríkisins um miðjan september. Enn voru kröfur FÍF að tillögur réttarstöðunefndar yrðu útfærðar í kjarasamningi. Eftir að ljóst var að samninganefnd ríkisins hafnaði algjörlega að ræða tillögur réttarstöðunefndar fékk FÍF heimild félagsmanna til að boða hrinu verkfalla í nóvember 2001 og skyldi fyrsta verkfallið hefjast 16. nóvember.
- 2001: Forsætisráðherra, Davíð Oddsson boðaði fulltrúa FÍF á sinn fund í forsætisráðuneytinu 12. nóvember 2001. Fundinn sátu einnig ráðherrar fjármála, samgöngumála og landbúnaðarráðherra í fjarveru utanríkisráðherra. Á fundinum krafðist forsætisráðherra þess að Félag íslenskra flugumferðarstjóra aflýsti boðuðum verkföllum ellegar yrði verkfallsréttur flugumferðarstjóra afnuminn varanlega með lögum. Þá lýsti forsætisráðherra því yfir í fjölmiðlum að verkföll flugumferðarstjóra yrðu ekki liðin og […] Ef að þeir [flugumferðarstjórar] sæju ekki ljósið og væru veruleikafirrtir þá væri ekki nokkur aðstaða önnur en sú að ríkisstjórnin myndi leggja til við Alþingi að verkfallinu yrði lokið með lögum“ (fréttir Stöðvar 2 12. nóvember 2001) . Í kjölfarið aflýsti FÍF boðuðum verkföllum en þegar ekkert hafði þokast í samningaviðræðum síðari hluta desember 2001 boðaði félagið yfirvinnubann sem hófst 14. janúar 2002. Þrátt fyrir að Félagsdómur úrskurðaði yfirvinnubannið löglegt með dómi, var FÍF enn hótað af forsvarsmönnum ríkisstjórnar Íslands að yfirvinnubannið yrði bannað með lögum. Áður en til þess kom, samþykktu félagsmenn FÍF miðlunartillögu ríkissáttasemjara 11. febrúar 2002.
- 2005: Í kjarasamningaviðræðum 2005 hafnaði samninganefnd ríkisins enn öllum óskum um útfærslu á tillögum réttarstöðunefndar. Þrátt fyrir það ákvað FÍF, í ljósi fyrri reynslu, að nýta sér ekki verkfallsrétt sinn til að knýja á um framgang málsins.
- 2008: Eins og fram hefur komið hér að framan hafa flugumferðarstjórar ekki haft eðlilega samningsstöðu í kjaradeilum sínum við ríkið. Þeim hefur ítrekað verið hótað starfsmissi af stjórnvöldum vegna breytinga á flugstjórnarsvæðum eða að lögbundinn réttur í kjaradeilu, þ.e. verkfallsrétturinn, verði tekinn af þeim varanlega ef þeir hyggist beita honum. Það er von FÍF að samskipti við nýjan samningsaðila verði á meiri jafnréttisgrundvelli en félagið hefur átt að venjast til þessa.