Þann 5. maí 1946 tóku fyrstu íslensku flugumferðarstjórarnir við starfinu af bresku herliði og voru þar með komnir með ábyrgð á flugumferðarstjórn á Íslandi. Síðar sama ár var Félag flugmálastarfsmanna ríkisins (FFR) stofnað og voru flugumferðarstjórarnir meðlimir þar. Þeir voru þá ungir og höfðu ekki miklar áhyggjur. Kaupið var ekki hátt, 2000 kr á mánuði. Svo gerðist það ekki mörgum árum síðar að flugumferðarstjórarnir fréttu af því að starfsfólk í loftskeytastöðinni í Gufunesi og á Veðurstofu Íslands fengi vaktavinnuálag þar sem það vann á kvöldin, nóttunni og um helgar. Flugumferðarstjórarnir unnu líka vaktavinnu en fengu ekkert slíkt álag. Þeir fóru því að stað í að reyna að rétta sín kjör í samvinnu við stjórn FFR en ekkert gekk.
Á haustmánuðum 1955 var ákveðið að stofna skyldi Félag íslenskra flugumferðarstjóra. Stofnfundurinn var haldinn á Notam skrifstofunni í gamla flugturninum þann 4. október 1955 og voru þar fyrstu lög félagsins samþykkt af öllum 17 stofnfélögum sem viðstaddir voru fundinn. Fjórir voru á vakt og töldust einnig stofnfélagar.
Á næstu mánuðum var unnin mikil vinna við að koma kjaramálum flugumferðarstjóra í ásættanleg horf. Það gekk illa og þann 1. mars 1956 sögðu allir flugumferðarstjórar störfum sínum lausum með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Það var svo seint að kvöldi 31. maí 1956 sem loks barst tilboð sem flugumferðarstjórar gátu samþykkt og þar með var kjarasamningur kominn í höfn.
Þann 6. október 1956 var haldin afmælisveisla FÍF sem þá var eins árs (og tveggja daga). Síðan varð það hefð næstu áratugina að halda veglega afmælisveislu á haustmánuðum sem næst stofndegi félagsins.
(úr Flugumferðarstjóratali sem FÍF gaf úr árið 2001)
Hin síðari ár hefur afmæli FÍF ekki verið haldið árlega en 1995 var haldið upp á 40 ára afmælið í Rúgbrauðsgerðinni, 2005 var 50 ára afmælið haldið hátíðlegt á Hótel Nordica og þann 3. október 2015 var haldin vegleg afmælishátíð á Icelandair Hotel Natura til þess að fagna 60 ára afmæli félagsins.