Starfsréttindi flugumferðarstjóra
Flugumferðarstjórar vinna við þrennskonar flugumferðarstjórn; flugturnsþjónustu, aðflug og svæðisflugstjórn í flugstjórnarmiðstöð. Hvert flug sem farið er byggist á fjórum þáttum: Flugtaki og brottflugi, leiðarflugi, aðflugi og lendingu. Hér á eftir er nánari lýsing á hverjum starfsréttindum fyrir sig.
Flugturn
Flugturnar eru starfræktir í Reykjavík, Keflavík og Akureyri. Á öðrum flugvöllum landsins er ekki flugumferðarstjórn heldur upplýsingaþjónusta og þar starfa flugvallaverðir eða flugradíómenn. Flugturn stjórnar allri flugumferð í nágrenni flugvallar 5 til 10 sjómílur (9-18 km.) sem og umferð á flugvellinum sjálfum. Flugturnar stjórna einnig blindflugsumferð á fyrstu stigum brottfarar og síðustu stigum lendingar.
Flugumferðarstjórar í flugturni þurfa að vera í miklu og góðu sambandi við flugvallarþjónustu á vellinum enda skiptir miklu máli að flugbrautir séu í góðu ástandi. Á veturna sjá snjómokstursdeildir um að halda flugbrautunum hreinum. Þegar mikið snjóar getur þurft að aka stöðugt eftir brautunum með snjómoksturstæki og þá er samvinna flugumferðarstjóra og snjóhreinsunardeildar mikilvægt. Þá á flugturninn gott samstarf við flugvallarslökkvilið sem er alltaf til staðar. Ef upp kemur neyðarástand þarf flugturninn að kalla út slökkvilið og viðeigandi neyðaraðila.
Engin ökutæki mega aka inn á flugbrautir nema með sérstöku leyfi frá flugturni.
Vinnu flugumferðarstjóra í flugturni er skipt í þrennt:
- Turn vinnur flugumferð á flugbrautunum sjálfum auk loftrýmisins næst flugvellinum.
- Grund sér um að skipuleggja og stjórna umferð flugvéla á akbrautum. Grund heimilar einnig flugvélum að ræsa hreyfla og ýta frá hliði. Þegar margar flugvélar eru að aka í einu getur grundin átt mjög annríkt.
- Heimildir (Data) sér um að lesa leiðaheimildir í flugvélar áður en þær aka af stað.
Á rólegum tímum geta þessar þrjár vinnustöðvar verið unnar í einni af sama flugumferðarstjóranum en algengara er að þær séu unnar aðskilið.
Aðflug
Aðflugsstjórn stjórnar flugumferð í blindflugi frá flugtaki og þar til hún kemst inn á fyrirhugaða flugleið. Eins sér aðflug um stjórnun flugvéla þegar þær koma til lendinga. Aðflugsstjórnin hefur afmarkað svæði sem hún sér um stjórn á. Hér á landi nær þetta svæði allt að 40 sjómílum (70 km) frá flugvelli. Aðflugsstjórn er unnin í flugstjórnarmiðstöðinni á Reykjavíkurflugvelli, bæði fyrir Reykjavíkur- og Keflavíkurflugvöll. Á Akureyri er einnig sérstök aðflugsstjórn sem unnin er samhliða þjónustu flugturns.
Auk áætlunarflugs fer mikill tími flugumferðarstjóra í aðflugsþjónustu í vinnu við einka- og kennsluflug. Á góðviðrisdögum eru gjarnan margir á ferðinni og þá þurfa flugumferðarstjórar í aðflugi að gæta þess að allt fari vel fram. Á mestu annatímum áætlunarflugs eru þó settar takmarkanir á einka- og kennsluflug til þess að forðast að álag verði of mikið.
Aðflugsþjónustan fyrir Reykjavíkur- og Keflavíkurflugvelli notast við tvær ratsjár og fjölvísunarkerfi (e. Multilateration = MLAT) til þess að staðsetja flugvélar. Önnur ratsjáin (H1) er staðsett á Miðnesheiði og rekin af Landhelgisgæslunni sem hluti af loftvarnarkerfi NATO. Hin er staðsett á Keflavíkurflugvelli og er rekin af Isavia. Sú er sérsniðin að þörfum aðflugsstjórnar og snýst hraðar en hin. Með því fást örari uppfærslur á staðsetningu flugvéla en drægið verður minna. Fjölvísunarkerfið byggir á fjölda móttökustöðva sem staðsetja flugvélar með því að reikna á hárnákvæman hátt tímamismun á merkjum sem berast frá flugvélum.
Flugumferðarstjórar í aðflugi eru beinu talsambandi við allar vélar í svæðinu í gegnum VHF stöðvar sem staðsettar eru á Keflavíkurflugvelli, í Bláfjöllum og í Vestmannaeyjum.
Flugstjórnarmiðstöð
Flugumferðarstjórar í svæðisflugsstjórn starfa í flugstjórnarmiðstöðinni í Reyjavík. Þeir stjórna stærstu svæðunum. Eru það innanlandssvæðið og úthafssvæðið.
Innanlandssvæðið er yfir öllu Íslandi og nær upp í 20.000 fet. Innanlands er yfirleitt flogið beint á milli staða en kennsluflugvélar velja gjarnan að fljúga eftir útgefnum flugleiðum. Á úthafssvæði er mest flogið eftir leiðum sem flugmenn og flugfélög hafa lagt fram óskir um með tilliti til hagstæðustu háloftavinda og þá miðast við hnitakerfi.
Úthafssvæðið nær frá vesturströnd Noregs að austurströnd Kanada og frá 200 sjómílum suður af Íslandi allt til Norðurpólsins. Í heild er íslenska flugstjórnarsvæðið 5,6 milljón ferkílómetrar. Efri hæðarmörk eru engin. Úthafssvæðinu er skipt í 4 minni svæði til að auðvelda stjórnun flugumferðarinnar.
Flugumferðarstjórar notast við alls sjö ratsjár til þess að fylgjast með svæðunum umhverfis Ísland og Færeyjar. Fimm ratsjár eru staðsettar á Íslandi, ein í Færeyjum og ein á Shetlandseyjum. Sú er í raun notuð af breskum flugumferðarstjórum en Íslendingar fá einnig gögn frá henni. Auk ratsjánna eru 24 ADS-B móttökustöðvar staðsettar í Færeyjum, á Íslandi og á suðurhluta Grænlands. Einnig notast flugstjórnarmiðstöðin við ADS-B gögn sem berast frá gervitunglum og þannig fá flugumferðarstjórar upplýsingar um vélar í öllu svæðinu. ADS-B móttökustöðvar taka á móti stöðutilkynningum frá flugvélum og birtist staðsetning véla þá í rauntíma á skjám flugumferðarstjóra. Nákvæmni ADS-B er enn meiri en ratsjár auk þess sem stöðvarnar eru mun ódýrari í uppsetningu og rekstri en ratsjárstöðvar. Margir nota vefsíðuna Flightradar24 en hún notast einnig við ADS-B gögn til þess að birta staðsetningu flugvéla.
Flugumferðarstjórar nota VHF talstöðvar til þess að eiga í samskiptum við flugvélar. Þó er ekki VHF drægi í öllu íslenska svæðinu en utan þess eru flugvélar í sambandi við Iceland radio. Iceland radio er deild innan Isavia ANS og annast fjarskipti við flugvélar í gegnum VHF og langdræga HF senda. Meirihluti flugvéla eru búnar FANS gagnasambandsbúnaði sem samanstendur af CPDLC (Controller pilot datalink connection) og ADS-C (Automatic dependent surveillance contract). Með CPLDC geta flugumferðarstjórar og flugmenn átt í beinum samskiptum í gegnum tölvusamband án þess að nota talsband. Það eykur til muna öryggi í samskiptum þar sem ekki er hætta á misskilningi auk þess sem afkastageta flugstjórnarmiðstöðvarinnar eykst. ADS-C samskiptin fela í sér reglulegar sjálfvirkar stöðutilkynningar frá flugvélum.
Daglegt starf flugumferðarstjóra
Hver flugvél sem flýgur um svæðin verður að skila inn flugáætlun. Í flugturnum og aðflugstjórnum vinna flugumferðarstjórar sjálfir úr þeim upplýsingum sem þar koma fram. Þeir skrá upplýsingar úr flugáætlununum og einnig frá öðrum deildum á þar til gerðar pappírsræmur sem eru einskonar minnismiðar og nota síðan við stjórnun umferðarinnar.
Í flugstjórnarmiðstöð er fluggagnakerfið (FDPS) aðalkerfið sem flugumferðarstjórar nota við flugumferðarstjórn fyrir leiðaflug (e. enroute). Í flugstjórnarmiðstöð starfa einnig fluggagnafræðingar sem taka við flugáætlunum sem sendar eru til miðstöðvarinnar og leiðrétta það sem við á og koma þeim upplýsingum síðan inn í fluggagnakerfið, þannig að þær nýtist flugumferðarstjórum við stjórnum flugumferðar. Einnig sjá fluggagnafræðingar um daglegt eftirlit með kerfum sem notuð eru við flugumferðarstjórn og skráningu flugumferðar í gegnum flugstjórnarsvæðið. Þegar flugvél er tilbúin til brottfarar frá flugvelli innan svæðisins eða kemur inn í það úr öðrum flugstjórnarsvæðum eru allar upplýsingar um vélina tilbúnar í fluggagnakerfinu. Flugumferðarstjórinn býr til rafræna ræmu fyrir viðkomandi flug með upplýsingum um flughæð og tíma yfir stöðumiðum á flugleið vélarinnar. Upplýsingar á ræmunni gefa til kynna hvar rými sé fyrir viðkomandi flugvél miðað við aðrar. Hver vinnustöð er útbúin með fjarskipta- og símabúnaði. Einnig eru víða ratsjárskjáir en tölvur eru í öllum vinnustöðum. Fyrir utan beina stjórnun flugumferðar byggist flugumferðarstjórn mjög á samvinnu, þ.e. að koma á framfæri og taka á móti upplýsingum um framvindu flugvéla sem eru á leið úr einu svæði í annað. Samvinna er einnig mikil milli manna í sömu deild, milli deilda og flugstjórnarmiðstöðva, bæði innalands og utan. Því eru allar vinnustöður í flugstjórnarmiðstöð með beinar símalínur til aðliggjandi deilda og einnig til flugstjórnarmiðstöðva erlendis.
Í aðflugi og flugturninum í Keflavík nota flugumferðarstjórar TAS (Tern ATC System) sem framleitt er af dótturfyrirtæki Isavia ANS, Tern. TAS tekur við gögnum úr ratsjám og birtir flugumferðarstjórum á skjá. Kerfið notast við gögn frá frumratsjá og svarratsjá og getur því birt bæði upplýsingar um flugvélar og veður.
Flugumferðarstjórinn verður að vera mjög fljótur að átta sig á aðstæðum og taka réttar ákvarðanir í samræmi við þær. Samskipti milli flugmanna og flugumferðarstjóra fara fram á ensku en leyfilegt er að nota íslensku í innanlandsdeild.
Öll samskipti um síma og fjarskiptatæki eru tekin upp og þau geymd í a.m.k. 30 daga.
Flugumferðarstjórar á Íslandi eru um 150 talsins. Stéttarfélagið er með skrifstofu í húsnæði BSRB og á tvo sumarbústaði til afnota fyrir félagsmenn.